Skip to content

Kortalán Skilmálar

  1. Undirritaður korthafi/kaupandi samkvæmt Kortalánssamningi þessum lofar að  greiða Rapyd Europe hf., kt. 500683-0589, Dalshrauni 3, 220 Hafnarfirði („Rapyd“), eða  þeim sem síðar kann að eignast samning þennan, ofangreinda fjárhæð með þeim  kjörum og afborgunum sem þar getur. 
  2. Greiðslumiðlun ehf., kt. 540612-1020, Laugavegi 99, 101 Reykjavík („umsýsluaðili“),  annast umsýslu Kortalánssamnings þessa fyrir Rapyd, þ.m.t. móttöku og afgreiðslu  lánsumsókna, gerð lánaskjala, skilmálabreytingar, rekstur þjónustuvers og  innheimtu. Heimasíða Greiðslumiðlunar ehf. er www.greidslumidlun.is. 
  3. Vextir á höfuðstól skuldarinnar reiknast frá útgáfudegi til fyrsta gjalddaga og síðan  mánaðarlega eftir það. Vaxtakjör miðast við verðskrá Rapyd eins og hún er á  hverjum tíma og skuldbindur korthafi/kaupandi sig jafnframt til að greiða færslugjöld  skv. verðskrá Rapyd á umsömdum gjalddögum. Gildandi verðskrá Rapyd á hverjum  tíma er aðgengileg á www.Rapyd.net. Gildistími samningsins er frá útgáfudegi til  greiðslu lokagjalddaga. 
  4. Ef höfuðstóll skuldarinnar ber breytilega vexti eru breytilegir vextir reiknaðir af  höfuðstól eins og hann er á hverjum tíma. Rapyd er heimilt að breyta vöxtunum  breytist þeir þættir sem vextirnir ákvarðast af. Við breytingar á vöxtum horfir Rapyd til breytinga á fjármögnunarkostnaði (lánskjörum) Rapyd. Korthafa verður tilkynnt  um breytingar á vöxtum með tölvupósti með 30 daga fyrirvara. Þegar breytingar á  vöxtum eru af völdum breytinga á viðmiðunargengi, viðmiðunarvöxtum eða vísitölum  verður tilkynnt um breytingar á þriggja mánaða fresti. 
  5. Við greiðslufall er Rapyd heimilt að breyta vaxtakjörum vaxtalauss láns úr  vaxtalausu láni í lán með breytilegum vöxtum við útreikning næstu afborgunar.  Vextir á höfuðstól skuldarinnar reiknast þá frá greiðslufalli til fyrsta gjalddaga í kjölfar  greiðslufalls og síðan mánaðarlega eftir það. Vaxtakjör miðast við verðskrá Rapyd  eins og hún er á hverjum tíma. 
  6. Verði vanskil á greiðslu afborgana, vaxta eða annars kostnaðar af samningnum er  Rapyd heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar.  Greiða ber dráttarvexti af gjaldfallinni og/eða gjaldfelldri fjárhæð og eru þeir ákveðnir  af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Dráttarvextir eru grunnur dráttarvaxta auk  vanefndaálags skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Til  viðbótar greiðist innheimtukostnaður sem Rapyd eða umsýsluaðili verður fyrir vegna  þess að korthafi stendur ekki í skilum. Við innheimtu gjaldfallinna og/eða gjaldfelldra  krafna og kostnaðar er farið eftir innheimtulögum nr. 95/2008, reglugerð nr. 37/2009  um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl., verðskrá Rapyd hverju sinni og  gjaldskrá lögfræðiinnheimtu hverju sinni, t.d. málflutningsþóknun. Fjárhæðir  innheimtukostnaðar geta tekið breytingum í samræmi við breytingar á verðskrá  Rapyd, sem aðgengileg er á www.Rapyd.is. 
  7. Verði um vanskil að ræða og kaupandi stendur ekki í skilum, verði gert hjá honum  árangurslaust fjárnám, leiti hann greiðslustöðvunar eða nauðasamninga, eða ef bú  hans verður tekið til gjaldþrotaskipta er Rapyd, eða þeim sem síðar kann að eignast  lánssamninginn, heimilt að gjaldfella eftirstöðvar skuldarinnar fyrirvaralaust.  Gjaldfallin skuld ber þá dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands  samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
  8. Með undirritun samnings þessa heimilar korthafi að greiðslukortareikningur hans  verði skuldfærður fyrir mánaðarlegum afborgunum, vöxtum, gjöldum og kostnaði  sem kveðið er á um í samningi þessum. 
  9. Ef korthafi fær ekki heimild hjá útgefanda fyrir afborgun og eftirstöðvar skuldarinnar  verða ekki skuldfærðar á greiðslukortið, ber korthafa að greiða umsamdar afborganir  á skrifstofu Rapyd, nema honum berist tilkynning um annan greiðslustað.  Greiðslutilkynning með tölvupósti og birting greiðslutilmæla í netbanka telst í þessu  tilliti nægileg tilkynning. Korthafi ber kostnað af innheimtunni og er Rapyd og  umsýsluaðila heimilt að innheimta sérstakt þjónustugjald vegna hennar skv.  verðskrá Rapyd. 
  10. Í samræmi við 18. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán er korthafa heimilt að standa  skil á skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningi, að öllu leyti eða að hluta,  fyrir þann tíma sem umsaminn er. Óski korthafi að greiða upp Kortalán fyrir  lokagjalddaga skal það gert í samráði við Rapyd og verða eftirstöðvar lánsins  skuldfærðar á greiðslukortareikning hans. Korthafi skal í slíkum tilvikum hafa  samband við Greiðslumiðlun í síma 527 5480 eða um netfangið  [email protected] Rapyd eða umsýsluaðila er heimilt að kveða á um að  uppgreiðsla lánsins skuli fara fram á aðgangsstýrðum þjónustuvef. Rapyd áskilur  sér rétt til að krefjast uppgreiðslugjalds í samræmi við 18. gr. laga nr. 33/2013.  Uppgreiðslugjaldið byggir á hlutlægum grunni vegna kostnaðar sem Rapyd verður  fyrir og tengist beint greiðslu fyrir gjalddaga. Ef krafist er uppgreiðslugjalds fellur það  á 30 dögum eftir greiðslu. 
  11. Árleg hlutfallstala kostnaðar er heildarlántökukostnaður, lýst sem árlegum  hundraðshluta af heildarfjárhæð lánsins, reiknuð samkvæmt reglugerð nr. 965/2013, um útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Heildarlántökukostnaður  samanstendur af öllum kostnaði sem korthafi þarf að greiða í tengslum við lán þetta  sem Rapyd er kunnugt um við kaupdag, þ.m.t. allur kostnaður sem tilgreindur er í  greiðsluáætlun, vextir og lántökugjöld. Árleg hlutfallstala kostnaðar er reiknuð út á  þeim tíma sem samningurinn er gerður. Við útreikning hennar er gengið út frá því  að samningurinn gildi umsaminn tíma og að korthafi standi við skuldbindingar sínar  samkvæmt skilmálum samningsins. Útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar  miðar við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka  lánstímans. 
  12. Greiðsluáætlun er hluti af samningi þessum og skal afhent korthafa við undirritun.  Korthafi á ávallt rétt á að fá afhent, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu,  reikningsyfirlit í formi niðurgreiðslutöflu sem sýnir greiðslur sem þarf að inna af hendi  og tímabil og skilyrði varðandi greiðslur, sundurliðun allra greiðslna sem sýnir  niðurgreiðslu höfuðstóls og allan viðbótarkostnað. Rapyd og umsýsluaðila er heimilt  að beina því til korthafa að nálgast slíkt reikningsyfirlit á aðgangsstýrðum  þjónustuvef. 
  13. Vilji korthafi óska eftir breytingum á skilmálum fyrir endurgreiðslu skuldarinnar eða  eftir endurfjármögnun lánsins skal hann senda umsókn þess efnis til umsýsluaðila.  Rapyd og umsýsluaðila er heimilt að beina því til korthafa að senda slíka umsókn  rafrænt á aðgangsstýrðum þjónustuvef. Rapyd og umsýsluaðila er heimilt að leggja  á og innheimta sérstakt gjald vegna slíkra skilmálabreytinga eða endurfjármögnunar  í samræmi við verðskrá Rapyd. Rapyd og umsýsluaðila er ekki undir neinum kringumstæðum skylt að fallast á umsókn um skilmálabreytingar eða  endurfjármögnun.
  14. Í samræmi við 16. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán hefur korthafi rétt til að falla  frá samningi, án þess að tilgreina nokkra ástæðu, enda sendi hann tilkynningu þar  að lútandi til lánamiðlara og Rapyd innan 14 daga frá þeim degi sem samningur er  gerður. Ef korthafi vill nýta rétt sinn til að falla frá samningi skal hann með  sannanlegum hætti innan frestsins annað hvort 1) með samþykki lánamiðlara  afhenda honum þá vöru eða þjónustu, sem lá að baki Kortaláninu og senda  tilkynningu til Rapyd á pappír eða með tölvupósti, eða 2) senda tilkynningu til Rapyd  á pappír eða með tölvupósti. Falli korthafi frá samningnum, sbr. ofangreint, skal  hann greiða Rapyd höfuðstól og áfallna vexti frá því að lánið var greitt út og til þess  dags þegar höfuðstóll er endurgreiddur án óþarfa tafa og eigi síðar en 30  almanaksdögum eftir að hann sendir Rapyd tilkynningu um að hann hyggist falla frá  samningi. Reikna skal vexti í samræmi við lánssamninginn. 
  15. Ef korthafi ákveður að nýta rétt sinn til að falla frá samningi um afhendingu vöru eða  þjónustu, sem tengdur er samningi þessum um kortalán, er hann ekki lengur  bundinn af samningi þessum, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán.  Korthafi ber þá kostnað af samningsgerð og skilum á lánsfé sem Rapyd eða  umsýsluaðili hefur stofnað til vegna samnings þessa. Ef vara eða þjónusta sem fellur  undir samning þennan er ekki afhent, eða aðeins afhent að hluta til, eða er ekki í  samræmi við samning um slíka afhendingu, á korthafi rétt á því að beita úrræðum  gagnvart Rapyd, ef korthafi hefur áður beitt úrræðum gegn þeim sem afhenda ber  vöru eða þjónustu, en ekki fengið þá úrlausn sem hann á rétt á samkvæmt dómi um  afhendingu vöru eða þjónustu, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 33/2013. Korthafi getur  einungis leitað úrræða gagnvart Rapyd, að því tilskyldu að eftirfarandi skilyrði séu  uppfyllt: (i) Bú seljanda hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, (ii) seljanda hefur verið  veitt heimild til að leita nauðasamnings, eða (iii) í ljós hefur komið við aðfarargerð  að seljandi getur ekki greitt skuldir sínar. Korthafi þarf að hafa lýst kröfu í þeim  tilfellum sem (i) eða (ii) liður hér að framan eiga við. Möguleikar korthafa til fullnustu  gagnvart Rapyd takmarkast við fjárhæð lána á þeim tíma sem krafa um úrbætur er  gerð. 
  16. Rapyd og umsýsluaðili taka ekki að sér milligöngu eða ábyrgð vegna ágreinings sem  rísa kann milli söluaðila og korthafa/kaupanda vegna gæða vöru eða þjónustu sem  greitt er fyrir með Kortaláni. 
  17. Rapyd er heimilt að framselja samning þennan. 
  18. Að öðru leyti en að ofan greinir gilda um viðskipti þessi lög um neytendalán nr.  33/2013. Neytendastofa, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, fer með eftirlit með  ákvæðum laganna. Korthafi hefur kynnt sér skilmála samningsins þ.m.t.  greiðsluáætlun Kortaláns sem er hluti af samningi þessum og hefur að geyma yfirlit  yfir afborganir, vexti og kostnað og samþykkir hann skilmála þessa með undirritun  sinni á samninginn. 
  19. Við gerð þessa samnings og fyrir útborgun láns mun Rapyd eða umsýsluaðili  framkvæma lánshæfismat á korthafa, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 33/2013 um  neytendalán. Mat á lánshæfi er byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita  áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort korthafi geti efnt samninginn.  Lánshæfismatið er byggt á viðskiptasögu aðila og/eða upplýsingum úr  gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust. Með undirritun samnings þessa staðfestir korthafi að hann hefur veitt samþykki fyrir því að Rapyd eða umsýsluaðili  afli og vinni með þær upplýsingar sem þörf er á vegna lánshæfismatsins, sbr. 7. tl.  2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Slíkt  samþykki nær einnig til þess að afla upplýsinga um korthafa frá þriðju aðilum.  Korthafa er kunnugt um að Rapyd kann að vera óheimilt að veita lán þetta ef slíkt  lánshæfismat hefur ekki verið framkvæmt eða ef lánshæfi eða greiðslumat leiðir í  ljós að korthafi hefur augljóslega ekki fjárhagslega burði til þess að standa í skilum  með lánið. Við vinnslu persónuupplýsinga er aðgangur takmarkaður við þá  starfsmenn umsýsluaðila og Rapyds sem hann þurfa starfs síns vegna. Auk þess er  umsýsluaðila og Rapyd heimilt að miðla persónuupplýsingum sín á milli og til  vinnsluaðila, sem gert hafa þjónustusamninga við umsýsluaðila eða Rapyd,  lögmanna, ábyrgðaraðila að skuld korthafa, eða annarra sem korthafi heimilar.  Umsýsluaðili og Rapyd tryggja persónuvernd að persónuupplýsingum með því að  leitast við að uppfylla á hverjum tíma lög og reglugerðir sem lúta að persónuvernd,  m.a. með mótun öryggisstefnu og setningu þeirra öryggis- og verklagsreglna sem  krafist er. Persónuupplýsingar korthafa eru varðveittar á meðan lán korthafa er  ógreitt, eins lengi og lög mæla fyrir um eða viðskiptahagsmunir umsýsluaðila eða  Rapyds krefjast þess og málefnaleg ástæða þykir til. Upplýsingar sem umsýsluaðili  og Rapyd fá vegna láns þessa kunna að vera nýttar vegna síðari lána korthafa í því  skyni að meta lánshæfi.
  20. Korthafi staðfestir að hann fékk fyrir undirritun þessa samnings upplýsingar um lán  þetta á eyðublaði í tölvupósti á netfangið sem tilgreint er hér að framan samkvæmt  reglugerð nr. 921/2013, um staðlað eyðublað sem lánveitandi notar til að veita  neytanda upplýsingar áður en lánssamningur er gerður og aðrar upplýsingar sem  lánveitanda ber að afhenda á varanlegum miðli. Korthafi er ábyrgur fyrir því að  tilkynna Rapyd um breytt netfang. Korthafi staðfestir jafnframt að hann hefur verið  upplýstur um sögulega þróun á greiðslubyrði óverðtryggðra lána, ef við á, sbr. 25.  gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán. 
  21. Sérstök athygli er jafnframt vakin á því að söluaðili þiggur ekki sérstaka þóknun fyrir  lánamiðlun vegna láns þessa. 
  22. Lánssamningur þessi er gefin út í tveimur samhliða eintökum og heldur hvor aðili  sínu eintaki. 
  23. Rísi mál út af samningi þessum má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjaness, eða á  heimilisvarnarþingi korthafa. Jafnframt getur korthafi skotið ágreiningi er varðar  fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni tengda láninu til Úrskurðarnefndar  um viðskipti við fjármálafyrirtæki.